Rakel Ósk

Í dag kom hin glaðlega Rakel Ósk 6 ára og sótti hjá okkur iPad ásamt ZooGue tösku. Þetta er tuttugasti og fyrsti iPad sem við gefum til hreyfihamlaðra barna. Þessi brosmilda stúlka er með CP, bundin hjólastól og þarf aðstoð við allar daglegar athafnir.

Hún hefur mikið yndi af tónlist og finnst ekkert skemmtilegra en að hlusta á uppáhalds söngvarana sína og syngja með. Nýlega komst hún í tæri við iPad í skólanum sínum og líkar ótrúlega vel. Þar hefur hún prófað tónlistaröpp þar sem hún slær á trommur, píanó og spilar á gítar með lögum. Hún ljómar eins og sólin og skemmtir sér konunglega við þetta. Frelsið, að geta leikið sér alveg sjálf án aðstoðar, er ómetanlegt og sést það langar leiðir hversu mikið þetta gefur henni. iPadinn mun líka gagnast henni vel á skólagöngunni, til að örva málþroska og hreyfigetu.

Rakel Ósk er einstaklega jákvætt og brosmilt barn, er fljót að læra og aðlagast nýjum hlutum og mun hennar eigin iPad auka frelsi hennar, stórefla aðstæður til náms og auka fjölbreytni í afþreyingu.