Katrín Sara

Á Þorláksmessu kom til okkar hún Katrín Sara Ketilsdóttir, 20 mánaða gömul. Hún er 29. langveika barnið sem fær iPad frá okkur að gjöf og jafnframt það yngsta hingað til. Katrín fæddist 1. apríl 2012, níu vikum fyrir tímann. Hún var með meðfæddan hjartagalla og þurfti að fara í stóra hjartaaðgerð til að laga hann. Þegar hún var rétt um eins árs kom í ljós að hún er líka með mjög sjaldgæfan litningagalla sem kallast Kabuki heilkenni, sem kemur til vegna stökkbreytingar á geni í einum litningi. Hún er eini Íslendingurinn sem hefur greinst með þetta heilkenni.

Heilkennið veldur mikilli seinkun á hreyfiþroska og málþroska. Hún er mjög langt á eftir í hreyfi- og málþroska.

Hún rétt farin að sitja sjálf, dregur sig áfram á maganum en hvorki skríður né stendur sjálf.

Hún er nýbyrjuð á leikskólanum Lyngási sem er leikskóli fyrir fötluð börn og þar hefur hún komist í kynni við iPad sem virðist hjálpa henni við að örva samhæfingu augna og handa, en það er oft sérstaklega erfitt hjá börnum með Kabuki heilkennið.

iPad mun mjög líklega hjálpa Katrínu Söru mikið og örva hana til frekari tjáskipta og hreyfifærni. Því fyrr sem byrjað er á því að þjálfa hana, því meiri líkur á að iPad auki lífsgæði hennar um ókomna tíð.