Halldóra María

Í dag kom til okkar glaðlega 2ja ára skottan hún Halldóra María og fékk hjá okkur iPad og ZooGue hulstur að gjöf. Hún er 39. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore Kringlunni. Halldóra fær alvarleg flog á einnar til þriggja vikna fresti. Lengstu flogin hafa varað í rúma 2 klukkutíma og þá virka engin lyf á hana og því þarf að færa hana yfir á gjörgæslu og setja í svæfingu því það er það eina sem stöðvar flogin. Hún hefur sex sinnum þurft á svæfingu að halda vegna floga.

Það hefur engin skýring enn fundist á veikindum hennar. Hún hefur farið í fjöldann allan af sneiðmyndatökum, heilalínuritum og blóðprufum. Hún hefur prufað 6 mismunandi flogalyf sem hafa virkað misvel fyrir hana og er hún á þremur lyfjum núna til að halda flogunum niðri.

Fyrir utan að vera flogaveik er hún þroskahömluð. Hún situr ekki, gengur ekki og er ekkert byrjuð að tala. Hún hefur góðan styrk í fótum og höndum en enga samhæfingu og á því mjög erfitt með allar hreyfingar.

Þrátt fyrir að Halldóra María sé veik og fái flog reglulega þá er það ekki það sem einkennir hana. Það sem einkennir hana er að hún er sífellt brosandi og alltaf glöð. Allir sem að þekkja hana eru sammála um það.

Við höfum tröllatrú á þessari stúlku og vitum að iPadinn á 100% eftir að auka hreyfigetu, þroska og lífsgæði hennar í framtíðinni.