Hann Hafsteinn Leó iPad að gjöf frá iStore Kringlunni á hátíð sem við héldum fyrir iBörnin okkar í húsdýragarðinum. Hann er 49. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá okkur.

Hann er greindur með hreyfihömlun CP heilalömun. Hafsteinn þarf að vera í sjúkraþjálfun tvisvar í viku ásamt þvi að þurfa að fara til Reykjavíkur einu sinni í viku til iðjuþjálfa. Hann er með hreyfihömlun í báðum fótum en meira i þeim hægri ásamt hægri hendi. Það vantar allar fínhreyfingar í hægri höndina hans. Hafsteinn Leó getur labbað smá sjálfur og er hann mjög daga misjafn, suma dagana getur hann ekkert gengið og missir allt jafnvægi vegna verkja og á mjög erfitt suma dagana með svefn vegna verkja.

Við vitum að iPad á 100% eftir að hjálpa honum með að þjálfa upp fínhreyfingar og auka lífsgæði hans. Við höfum trölla trú á þessum flotta strák.


Hinn 6 ára Haraldur Már iPad og ZooGue hulstur að gjöf frá iStore Kringlunni. Hann er 48. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá okkur.
Haraldur Már er með dæmigerða einhverfu og tjáir sig mjög takmarkað, því erum við handviss að iPad mun nýtast honum vel í framtíðinni. Við höfum trölla trú á þessum flotta strák.


iStore í Kringlunni kom hinum flotta 13 ára Alexander Breka á óvart í dag með því að gefa honum iPad, zoogue hulstur og sérstakan stylus, en hann er 47. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá okkur. Hann er fjölfatlaður unglingur sem þarf 100% umönnun. Þrátt fyrir þetta er hann ofboðslega skýr er hreyfigetan takmörkuð. Hann getur heilmikið með hjálp nútímatækni á borð við tölvu. Hann getur lært og mun iPad auka lífsgæði hans og breyta lífi hans til batnaðar. iPad mun hjálpa honum að læra fínhreyfingar og samhæfingu augna og handa. Slíkt mun án nokkurs vafa auka lífsgæði hans.

Hann var mikið glaður, svo glaður að hann táraðist. Það er yndisleg staðfesting um að gjafir okkar gleðja
hetjur eins og hann.


í tilefni af Bláum Apríl komum við fermingarbarninu Sunnevu á óvart með því að gefa henni iPad þegar hún labbaði inní búðina okkar með mömmu sinni, en þær mægður voru báðar grunlausar
um að Sunneva hafi verið valin til að verða 46. barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore Kringlunni.

Suneva líf fæddist eftir 40 vikna meðgöngu og allt lét rosalega vel út en um leið og hún fæddist með bráða keisara kom í ljós að hún væri með downs heilkenni. Sunneva er rosalega heppin með að hún fæddist ekki með alvarlegan hjartagalla. Sunneva dafnaði mjög vel sem ungabarn byrjaði að skriða um 14 mánaða aldur og byrjaði að labba um 22 mánaða aldur. Sunneva byrjaði í leikskóla og var mjög ánægð þar til að um 3 ára aldur fór leikskólanum að gruna að hún væri með einhverfu þar sem hún var mikið um það vera ein og þoldi illa áreiti og hávaða og var með röðunaráráttu og var hún send í greiningu.

Sunneva var greind með ódæmigerða einhverfu um 3 ára aldur og mikinn seinþroska. Sunneva hefur þurft mikið að vera hjá sjúkraþjálfun ,iðjuþjálfun, talþjálfun í gegnum árin og hefur þurft að vera mikið undir smásjánni hjá læknum og hefur þurft að vera í sérsmiðuðum skóm vegna vöðvaslökun sem börn með Downs fæðast með og hefur mjög slæma sjón og hefur þurft að vera með gleraugu frá því að hún var 3 ára.


Í tilefni af degi sjaldgæfra sjúkdóma buðum við einstakri stúlku, henni Freydísi Borg iPad og ZooGue hulstur að gjöf. Hún er 45. barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore Kringlunni. Freydís er 2ja ára og greindist fyrir ári síðan með Williams heilkenni. Heilkennið er sjaldgæft og það eru aðeins 19 einstaklingar á Íslandi með það.

Freydís er með mjög seinkaðan hreyfiþroska og er til dæmis ekki enn farin að ganga. Hún er með laka vöðvaspennu og það flækir aðeins fyrir henni. Einnig notar hún augun sín á mjög sérstakan hátt, hún notar bara annað í einu og er með það sem kallast „rörasýn“.

iPad mun klárlega hjálpa til við að örva hana, að æfa fínhreyfingar, samhæfa augu og auka lífsgæði hennar.

Við höfum mikla trú á þessari einstöku stúlku!


Í dag kom til okkar flottur strákur að nafni Pawel til að fá glaðning frá okkur, en hann er 44. langveika barnið sem fær iPad og ZooGue hulstur að gjöf frá okkur í iStore Kringlunni.

Hann fæddist eftir tæplega 26 vikna meðgöngu og var vart hugað líf við fæðingu. Hann hlaut alvarlegar heilablæðingar og er afleiðing þeirra sú að hann er með hreyfihömlun sem kallast CP heilalömun. Hann er núna 2ja og hálfs árs gamall.

Hreyfihömlunin gerir það að verkum að Pawel notar lítið hægri hönd sína og nær illa að stjórna hreyfingum hennar. Hreyfihömlunin hefur einnig áhrif á fætur en Pawel getur ekki gengið óstuddur. Áfallið sem hann varð fyrir við að komast í þennan heim orsakaði einnig þroskaskerðingu svo Pawel er ekki farinn að tala.

Við erum 100% viss um að iPad á eftir að gagnast þessum flotta strák vel í að þjálfa hreyfigetu og tjáningu og að örva þroska.


Í gær kom til okkar þessi flotti 3ja ára strákur að nafni Tómas Páll og fékk frá okkur iPad og ZooGue hulstur í jólagjöf, en hann er 43. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore í Kringlunni. Hann er með úrfellingu í litningi sem er einstakur á heimsvísu. Þetta veldur ýmsum afleiðingum eins og þroskafrávikum, slakri vöðvapennu, næringarvanda, flogaveiki og hann talar ekki. Þar sem engin fordæmi eru fyrir þessum litningagalla vitum við ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Tómas er þó nokkuð hraustur og almennt ánægður með lífið.

Við höfum tröllatrú á Tómasi og teljum nær öruggt að þessi gjöf mun auka hreyfigetu, hjálpa með tjáningu og örva þroska hans.


Í dag fór eigandi iStore í Kringlunni til Akureyrar með Flugfélagi Íslands til að færa þessum flotta 2ja ára stráki, Halldóri Jens iPad að gjöf, en hann er 42. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá okkur. Hann er með Angelman heilkenni, en mikil almenn þroskaseinkun og skert hreyfigeta fylgja heilkenninu. Við erum 100% á því að iPad á eftir að örva þroska, skynjun og hreyfigetu Halldórs. Einnig getur iPad hjálpað honum að tjá sig í framtíðinni.

Við erum ekki í minnsta vafa um að iPad mun auka lífsgæði Halldórs og vera honum mikilvægt hjálpartæki um ókomna tíð.


Í dag kom til okkar hinn 8 ára Snorri Steinn og fékk hjá okkur iPad og ZooGue tösku að gjöf. Hann er 41. barnið sem fær iPad að gjöf frá okkur. Snorri er með fötlunina arthrogryposis multiplex congenita, sem mætti kalla vöðva- og taugasjúkdóm á íslensku. Hann Snorri Steinn er sem sagt ekki með vöðva til staðar í upphandleggjunum og eru hendurnar hans því fastar, hann getur ekki beygt olnboganna.

Nú er Snorri Steinn byrjaður í 3. bekk og þá er námið farið að þyngjast. Hann á mjög erfitt með að skrifa og hann þreytist verulega í höndunum við það. Hann fær mikla verki í hendurnar og þjáist af vöðvabólgu.

iPad á eftir að nýtast Snorra vel við að þjálfa fínhreyfingar jafnt og í námi. Við höfum tröllatrú á honum!


Í dag fékk hin 6 ára Emmy Becker iPad og ZooGue tösku frá iStore Kringlunni. Hún er barn númer 40 sem fær iPad að gjöf frá okkur. Að tilefninu buðum við öllum iBörnunum og fjölskyldum þeirra til hátíðar í Húsdýragarðinum. Emmy er með þroskahömlun og er sein með tal og hreyfingar. Hún er að verða 7 ára og er að byrja í öðrum bekk í sinni sérdeild en í andlegum og líkamlegum þroska er hún 4 ára.

Hún fer tvisvar í viku í sjúkraþjálfun og mun iPad hjálpa henni að æfa fínhreyfingarnar, tal og örva þroska. Við höfum mikla trú á að iPad muni auka lífsgæði hennar.


Í dag kom til okkar glaðlega 2ja ára skottan hún Halldóra María og fékk hjá okkur iPad og ZooGue hulstur að gjöf. Hún er 39. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore Kringlunni. Halldóra fær alvarleg flog á einnar til þriggja vikna fresti. Lengstu flogin hafa varað í rúma 2 klukkutíma og þá virka engin lyf á hana og því þarf að færa hana yfir á gjörgæslu og setja í svæfingu því það er það eina sem stöðvar flogin. Hún hefur sex sinnum þurft á svæfingu að halda vegna floga.

Það hefur engin skýring enn fundist á veikindum hennar. Hún hefur farið í fjöldann allan af sneiðmyndatökum, heilalínuritum og blóðprufum. Hún hefur prufað 6 mismunandi flogalyf sem hafa virkað misvel fyrir hana og er hún á þremur lyfjum núna til að halda flogunum niðri.

Fyrir utan að vera flogaveik er hún þroskahömluð. Hún situr ekki, gengur ekki og er ekkert byrjuð að tala. Hún hefur góðan styrk í fótum og höndum en enga samhæfingu og á því mjög erfitt með allar hreyfingar.

Þrátt fyrir að Halldóra María sé veik og fái flog reglulega þá er það ekki það sem einkennir hana. Það sem einkennir hana er að hún er sífellt brosandi og alltaf glöð. Allir sem að þekkja hana eru sammála um það.

Við höfum tröllatrú á þessari stúlku og vitum að iPadinn á 100% eftir að auka hreyfigetu, þroska og lífsgæði hennar í framtíðinni.


Í dag kom til okkar hin glaðværa Agnes Freyja, 5 ára. Hún fékk hjá okkur iPad og ZooGue hulstur að gjöf. Agnes er 38. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore Kringlunni. Hún Agnes Freyja er dugleg og glaðvær stúlka sem er með CP í báðum heilahvelum og er af þeim sökum bundin hjólastól og getur ekki talað. Hún þarf stuðning við allar daglegar athafnir en það sem henni þykir skemmtilegast í heimi er að leika sér í spjaldtölvu. Því hefur hún kynnst en hafði ekki ennþá eignast eina slíka fyrr en nú.

Við erum ekki í minnsta vafa um að iPad eigi eftir að nýtast henni mjög vel til tjáningar OG við að þjálfa fínhreyfingar. Svo mun iPad nýtast henni í námi en hún byrjar í Klettaskóla í haust.

Í þetta skipti var það hann Alvin Óskar sonur eiganda iStore sem afhenti Agnesi iPadinn en hann hélt uppá 8 ára afmælið sitt um helgina og langaði því að gleðja langveikt barn í leiðinni.


Til okkar kom í dag hinn 5 ára Patryk Szarpak og fékk iPad og ZooGue tösku að gjöf frá iStore, en hann er 37. langveika barnið sem fær iPad frá okkur. Patryk er með einhverfugreiningu og talsverða seinkun í þroska og málþroska. Patryk er glaðlyndur og skemmtilegur drengur með mikla útgeislun.

Patryk talar ekkert og notar hann PECS boðskiptakerfi til boðskipta. PECS boðskiptakerfið hjálpar honum að tjá sig um hvað hann vill gera eða fá. Einnig er Patryk með dagskipulag sem sýnir hvenær hann eigi að gera hvað. Sjónrænt dagskipulag veitir honum öryggi því þá veit hann alltaf hvað hann á að gera.

Við höfum mikla trú á því að þessi gjöf muni auka lífsgæði hans til muna, örva þroska hans og gera honum fært að tjá sig með iPad.


Þann 27. mars 2015 kom til okkar 2ja ára strákur að nafni Stefán Sölvi en hann er 36. langveika barnið sem fær iPad og ZooGue hulstur frá iStore í Kringlunni. Gaman er að geta þess að Garminbúðin ætlar að gefa honum RAM hjólastólafestingu fyrir iPad.

Stefán Sölvi er með genagalla en er samt ennþá í greiningarferli. Enn sem komið er er hann sá eini í heiminum sem er með þennann galla. Hann er mikið fatlaður og flogaveikur. Hann er með lélega sjón og getur lítið hreyft sig, en hann elskar tónlist og að horfa á alls kyns örvunarmyndir. iPad mun hjálpa honum mjög mikið við hreyfiörvun, sjónörvun og þroska.

Við höfum reynslu af því að börn í svipuðum aðstæðum og Stefán hafa sýnt miklar framfarir og því höfum við vægast satt tröllatrú á þessum flotta kappa.

Uppfært: Okkur hryggir mikið að segja frá því að þann 29. maí 2015 lést þessi litla fallega hetja.


Í dag kom til okkar lítil 3ja ára skotta sem heitir Íris Embla, en hún er 35. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá styrktarsjóð iStore.
Hún er m.a sjónskert, flogaveik og með takmarkaða hreyfigetu.
Hún þarf 100% umönnun, allan sólahringinn.

Hún hefur fengið að prófa ipad og hefur það gengið vel.
Hann hefur verið notaður í þjálfun, m.a. sjónörvun og í hreyfiþjálfun sem og hljóðörvun, en Íris elskar tónlist.

Hún mun getað notað hann sem samskiptabók milli leikskóla og fjölskyldu og einnig vonandi til tjáskipta.

iPad mun án efa auka lífsgæði þessarar glaðlyndu stúlku til muna og erum við því spennt að fylgjast með henni í framtíðinni.


Í dag kom til okkar flottur strákur að nafni Ýmir Snær, en hann er 34. barnið sem fær iPad og tösku að gjöf frá styrktarsjóð iStore. Hann fæddist 19. júní 2013 með arfgengan sjúkdóm sem kallast spennuvisnun eða dystrophia myotonica. Þetta er sjaldgæfur sjúkdómur og eru einungis þrjú börn á landinu með hann. Sjúkdómurinn hefur meðal annars áhrif á vöðvastyrk líkamans. Ýmir Snær á vegna sjúkdóms síns erfitt með að leika sér eins og önnur börn en honum finnst afskaplega gaman að skoða myndir og leika sér i tölvum og hann hefur fengið að prófa iPad þar sem öpp með örvandi leikjum og skærum litum hafa verið honum til mikillar ánægju.

Við höfum mikla trú á þessari litlu hetju og vitum að iPad mun auka lífsgæði hans.

iPad hjálpar honum mjög við að ná stjórn á fínhreyfingum, örva þroska og tjáningu.

Innilega til hamingju Ýmir!


Í dag kom hann Jóhannes Jökull til okkar og fékk iPad og ZooGue tösku að gjöf. Hann er 33. langveika barnið sem fær iPad úr styrktarsjóð iStore. Hann er þriggja ára, en 5 mánaða gamall greindist hann með sjaldgæft heilkenni, Williams syndrome. Heilkennið orsakast af s.k úrfellingu í 7. litningaröð og telst því litningagalli.

Þroskahömlun Jóhannesar kemur fram á flestum sviðum, hreyfiþroski hans er seinn og að mörgu leyti takmarkaður. Jóhannes er ekki farinn að tala og á erfitt með að mynda samhljóða. Hann hefur úrvalsteymi fólks í kringum sig, stuðningsfóstru og sérkennara á leikskólanum og sjúkra- og iðjuþjálfara á Æfingamiðstöð lamaðra og fatlaðra. Allir vinna að því markmiði að örva þroska hans, hjálpa honum að þróa það sem kemur sjálfkrafa hjá flestum öðrum börnum einsog t.d tal og samskiptatækni.

iPad mun nýtast honum mjög vel til að örva bæði málþroska og fínhreyfingar handa.

Við höfum mikla trú á þessum flotta strák!


Til okkar kom hún Petra sem er næstum 5 ára gömul. Við ákváðum að gefa henni iPad að gjöf, en hún er 32. langveika barnið fær iPad og ZooGue tösku frá okkur. Hún fæddist heilbrigð en fékk heilahimnubólgu 3 vikna gömul. Hún hlaut heilskaða og er með CP sem lýsir sér í lömun á hægri hliði líkamans. Hún er í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun og er dugleg stelpa sem gengur sjálf og er mjög sjálfstæð þótt hún þurfi enn talsverða aðstoð og stuðning í daglegu lífi. Vegna skertar hreyfigetu og takmarkaðrar færni í tali er mikilvægt að hún fái þjálfun sem fyrst. iPad getur hjálpað henni mikið í talþjálfun og einnig við að þjálfa fínhreyfingar hægri handar sem hún á erfitt með að beita. Einnig þarf vinstri hendi þjálfun þar sem hún er rétthent að upplagi en er nú örvhent vegna lömunarinnar. Petra er mjög glaðlynd og jákvæð stúlka með mikla útgeislun. Við erum mjög bjartsýn á að iPad eigi eftir að hjálpa henni mikið í framtíðinni.


Nýlega kom til okkar flottur strákur að nafni Aron Hlynur. Hann er 2ja ára og er hreyfihamlaður, flogaveikur og með þroskaskerðingu. Hann er 31. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore.

iPad mun nýtast honum til dæmis sem hreyfiörvun (æfing í að beita fingrum) og örvun fyrir sjón og heyrn, sem og til boðskipta.

Við höfum mikla trú á honum. Til hamingju Aron!


Það gleður okkur að segja frá því að Þorsteinn Atli kom til okkar og tók á móti þrítugasta iPadinum frá Styrktarsjóð iStore. Hann er glaðlyndur tæplega 3ja ára gamall drengur sem byrjaði á leikskólanum Huldubergi haustið 2013. Hann er mikið flogaveikur og hefur verið það frá því hann var nokkurra mánaða gamall. Flogin hafa orðið til þess að hann hefur ekki þrosksast eðlilega og þarf hann aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Hreyfifærni í höndum er einhver en hann á það til að eiga erfitt með að sleppa þegar hann tekur utan um eitthvað.

iPad mun til dæmis nýtast honum sem hreyfiörvun (æfing í að beita fingrum) og örvun fyrir sjón og heyrn, sem og til boðskipta.

Við höfum mikla trú á honum og það mátti auðveldlega sjá gleði skína í augum hans þegar hann fékk gjöfina frá okkur.


Á Þorláksmessu kom til okkar hún Katrín Sara Ketilsdóttir, 20 mánaða gömul. Hún er 29. langveika barnið sem fær iPad frá okkur að gjöf og jafnframt það yngsta hingað til. Katrín fæddist 1. apríl 2012, níu vikum fyrir tímann. Hún var með meðfæddan hjartagalla og þurfti að fara í stóra hjartaaðgerð til að laga hann. Þegar hún var rétt um eins árs kom í ljós að hún er líka með mjög sjaldgæfan litningagalla sem kallast Kabuki heilkenni, sem kemur til vegna stökkbreytingar á geni í einum litningi. Hún er eini Íslendingurinn sem hefur greinst með þetta heilkenni.

Heilkennið veldur mikilli seinkun á hreyfiþroska og málþroska. Hún er mjög langt á eftir í hreyfi- og málþroska.

Hún rétt farin að sitja sjálf, dregur sig áfram á maganum en hvorki skríður né stendur sjálf.

Hún er nýbyrjuð á leikskólanum Lyngási sem er leikskóli fyrir fötluð börn og þar hefur hún komist í kynni við iPad sem virðist hjálpa henni við að örva samhæfingu augna og handa, en það er oft sérstaklega erfitt hjá börnum með Kabuki heilkennið.

iPad mun mjög líklega hjálpa Katrínu Söru mikið og örva hana til frekari tjáskipta og hreyfifærni. Því fyrr sem byrjað er á því að þjálfa hana, því meiri líkur á að iPad auki lífsgæði hennar um ókomna tíð.


Eigandi iStore fór til Akureyrar til að hitta skemmtilega stúlku að nafni Helena Ósk og færa henni iPad í jólagjöf. Hún er eini einstaklingurinn á landinu sem er með þessa tilteknu fötlun, duplication syndrome í litning.

Hún notast við iPad í skólanum en á engan heima. Hún getur sagt nokkur orð eins og mamma, pabbi, nei, o.s.frv. en annars notast hún að mestu við táknmál. Hún er 14 ára í dag.

iPad á eftir að nýtast henni vel í námi og við tjáningu.

Hinn 2ja ára Igor Adamczyk kom til okkar í búðina og fékk hjá okkur iPad í jólagjöf frá iStore en hann er 27. langveika barnið sem sem fær iPad að gjöf frá okkur.

Igor er með heilalömun en hann fæddist 3 mánuðum fyrir tímann og varð stuttu síðar fyrir alvarlegum súrefnisskorti.

Igor er glaðlyndur strákur sem langar svo að vera með í öllu því sem aðrir gera. iPad er alveg nauðsynlegt tæki fyrir hann til að þjálfa sig í fínhreyfingum, sérstaklega hægri höndina sem hann notar ekki neitt.

Við óskum þessum frábæra strák til hamingju!


Þessi glaðlega 5 ára stúlka, Þórdís Elísabet, kom til okkar í iStore og fékk hjá okkur iPad að gjöf, en hún 26. langveika barnið sem við styrkjum með iPad. Hún er með taugahrörnunarsjúkdóm sem heitir Charcot-Marie-Tooth. Charcot-Marie-Tooth (CMT) er flokkur skyldra taugahrörnunarsjúkdóma með svipuð en misalvarleg einkenni sem orsakast af mismunandi göllum í genum úttaugakerfisins.

Þórdís Elísabet greindist nýlega með mjög sjaldgæfa og alvarlega undirtegund CMT sem nefnist CMT4A og orsakast af galla í GDAP1 geninu. Sjúkdómurinn veldur með tímanum stigvaxandi lömun í útlimum, en einnig getur hann valdi þindarlömun og lömun á raddböndum. Flestir einstaklingar með CMT4A eru bundnir við hjólastól við 10-20 ára aldur.

Þórdís Elísabet er með skerta hreyfigetu í fingrum, sem hefur ágerst síðasta árið og mun hún að öllum líkindum þurfa að nýta sér tölvur/iPad þegar hún byrjar í skóla á næsta ári.

Okkar trú er að iPad verði henni mikilvægt hjálpartæki í framtíðinni og komi til með að hjálpa henni mikið í að halda í sem mestu mögulegu hreyfigetu.

Þessi gjöf mun nýtast henni vel í námi næsta haust og vera henni mikil stoð.

Innilega til hamingju Þórdís.


Eigandi iStore skellti sér í leiðangur til Akureyrar til að hitta Kristján Loga, 8 ára skólastrák, og færði honum iPad að gjöf. Hann er 25. langveika barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore. Það var ekki fyrr en hann var 6 mánaða að í ljós kom að hann var ekki að fylgja jafnöldrum sínum í þroska. Í dag hefur hann verið greindur með CP. Hann er fjölfatlaður, flogaveikur, bundinn hjólastól og getur ekki tjáð sig með orðum. Við bindum miklar vonir við það að hann geti tjáð sig í framtíðinni með iPadinum. Hann gengur í Giljaskóla á Akureyri og er þar í sérdeild þar sem hann mun fá þjálfun við nota iPadinn. Þessi glaðværi strákur á líklega eftir að brillera! Við óskum honum og fjölskyldu hans til hamingju með þessi tímamót.


Eigandi iStore í Kringlunni fór til Ísafjarðar til að hitta hinn 10 ára Eyþór Inga og gefa honum iPad og ZooGue tösku, en þetta er tuttugasti og fjórði iPadinn sem við gefum til langveikra barna. Eyþór Ingi hefur verið mikið fatlaður frá fæðingu og er greindur með heilahrörnun. Hann er bundinn við hjólastól og þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Hann nærist gegnum kvið-stomiu. Hann hefur líka misst mikla sjón síðustu árin. Síðasta vetur var byrjað að vinna með iPad í skólanum hans sem þjálfunartæki fyrir hann og kom þá í ljós að iPad nýtist honum líka vel til sjónörvunar. Auk þess fannst honum mjög gaman að hlusta á alls kyns tónlist á YouTube og gat nýtt sér ýmsa tölvuleiki. Nú getur hann æft sig alla daga heima sem og í skólanum. Við höfum trú á því að iPadinn eigi eftir að koma honum að góðum notum.


Til okkar kom Dagbjört Ýr 2ja ára og tók á móti iPad og ZooGue tösku. Þetta er tuttugasti og annar iPadinn sem við gefum til langveikra barna, en Dagbjört fæddist með litningargalla sem heitir Prader-Willi en hún á erfitt með alla tjáningu. iPad mun koma henni að góðum notum við að þjálfa hreyfingar og tjáningu í framtíðinni. Hún er mikill gleðigjafi og elskar tónlist. Við höfum mikla trú á því að iPad muni breyta lífi þessarar glaðlegu stúlku til hins betra.


í búðina kom til okkar hin glaðlega Gabriela Rós 4 ára og sótti til okkar iPad og ZooGue tösku. Þetta er tuttugasti og þriðji iPadinn sem við gefum langveikum börnum. Hún með skerta hreyfigetu og þarf alla aðstoð við daglegt líf. Hún tjáir sig ekki með orðum en verið er að vinna í því að finna út hvaða tjáningarleið hentar henni best. Í leikskóla hennar hefur starfsfólk fundið mjög þægilegt app fyrir iPad sem þau eru að byrja að nota sem hennar tjáningarform. Í því eru notaðar myndir til tjáningar. Hún mun alveg örugglega brillera í tjáningunni innan tíðar! Við trúum því að þessi gjöf geti aukið lífsgæði hennar til muna, það verður því gaman að fylgjast með henni.


Í dag kom hin glaðlega Rakel Ósk 6 ára og sótti hjá okkur iPad ásamt ZooGue tösku. Þetta er tuttugasti og fyrsti iPad sem við gefum til hreyfihamlaðra barna. Þessi brosmilda stúlka er með CP, bundin hjólastól og þarf aðstoð við allar daglegar athafnir.

Hún hefur mikið yndi af tónlist og finnst ekkert skemmtilegra en að hlusta á uppáhalds söngvarana sína og syngja með. Nýlega komst hún í tæri við iPad í skólanum sínum og líkar ótrúlega vel. Þar hefur hún prófað tónlistaröpp þar sem hún slær á trommur, píanó og spilar á gítar með lögum. Hún ljómar eins og sólin og skemmtir sér konunglega við þetta. Frelsið, að geta leikið sér alveg sjálf án aðstoðar, er ómetanlegt og sést það langar leiðir hversu mikið þetta gefur henni. iPadinn mun líka gagnast henni vel á skólagöngunni, til að örva málþroska og hreyfigetu.

Rakel Ósk er einstaklega jákvætt og brosmilt barn, er fljót að læra og aðlagast nýjum hlutum og mun hennar eigin iPad auka frelsi hennar, stórefla aðstæður til náms og auka fjölbreytni í afþreyingu.


Í dag, síðasta dag vetrar, urðu stór tímamót hjá iStore því að við vorum að gefa tuttugasta iPadinn til hreyfihamlaðs barns!

Lítil, falleg og glöð 3ja ára stúlka sem heitir Jóhanna fékk alvarlega (4. stigs) heilablæðingu 6 vikna gömul. Hún er greind með (cp-heilalömun) vinstri hlið líkama hennar er með skerta hreyfigetu en þó vantar aðallega upp á fínhreyfingar í vinstri höndinni. Hún er að nota iPad í iðjuþjálfun (í Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra) sem er að gera henni mjög gott og á fyrstu 5 árunum hennar á hún mesta möguleika á að ná sem bestum styrk og fínhreyfingum í höndina með réttri örvun.

Við höfum mikla trú á að Jóhanna gæti nýtt sér iPad vel til að þjálfa fínhreyfingar en tíminn er dýrmætur.


Í dag gáfum við nítjánda iPadinn. Yndislegur og glaður drengur, Guðfinnur Ari Bachmann, kíkti við hjá okkur í iStore, til að sækja iPad og ZooGue tösku sem við ákváðum að gefa honum. Hann verður 6 ára í næstu viku og er þetta því kærkomin afmælisgjöf. Hann er með CP fjórlömum sem þýðir að hann er verulega hreyfihamlaður. Hann fer um í hjólastól sem hann getur ýtt að nokkru leyti sjálfur. Hreyfiskerðing í höndum er einnig veruleg og getur hann nýtt þær mjög takmarkað. Hann þarf fulla umönnun. Tjáning Guðfinns er mjög takmörkuð og segir hann einungis örfá orð. Guðfinnur sýnir umhverfi sínu mikinn áhuga og er sérstaklega áhugasamur um tónlist.

Við höfum mikla trú á að Guðfinnur Ari geti nýtt sér iPad vel til að þjálfa fínhreyfingar, tjá sig, hjálpa sér í námi, spila á hljóðfæri og örva þroska.

Við óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með gjöfina, það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni!


Nýlega fékk 7 ára stúlka, Helena Jakubiak, iPad og ZooGue hulstur frá styrktarsjóði iStore. Helena er með Smith-Lemil-Opiz heilkenni sem upphaflega var kallað RSH. SLO er genatengdur efnaskiptasjúkdómur sem gerir það að verkum að líkaminn framleiðir ekki ensím sem er mikilvægt til að fullvinna kólesteról. Þetta hamlar vexti og þroska líkamans bæði fyrir og eftir fæðingu.

Helena er hreyfihömluð og á erfitt með tjáningu. Því mun iPadinn hjálpa henni að tjá sig, hjálpa henni í að þjálfa fínhreyfingar og auðvelda henni nám í framtíðinni.

Við höfum mikla trú á þessari hressu stúlku, það sást bersýnilega að hún gat ekki beðið eftir að fara að nota iPadinn.


Júlía Rakel Baldursdóttir kom í búðina til okkar í til að taka á móti iPad og ZooGue tösku sem hún fær í jólagjöf frá iBörnum sem er styrktarsjóður iStore. Hún er með spastíska fjórlömun (CP) og dæmigerða einhverfu. Auk þess er hún sjónskert og notast við litaspjöld og stækkað letur þegar hún les. Júlía Rakel er í Langholtsskóla og reynir allt hvað hún getur til að fylgja jafnöldrum sínum eftir í námi, en fötlun hennar er henni þar þrándur í götu. Það er einnig sannarlega til bóta að geta haft eigin iPad sem hún gæti hlaðið niður námsefni og verkefnum í.

Við höfum mikla trú á að þessi gjöf muni koma henni vel að notum og auka lífsgæði hennar til muna, en hún er 13 ára gömul og er hún því elsta iBarnið.


Í dag kom 7 ára drengur að nafni Friðrik Anton Markús Grétuson og fékk iPad og ZooGue tösku í jólagjöf frá iBörnum sem er styrktarsjóður iStore í Kringlunni.

Friðrik er tvíburi fæddist eftir 24 vikna meðgöngu, en hann var minni tvíburinn en bróðir hann lifði ekki nema í um sólarhring. Friðrik er með CP og er því með skerta hreyfigetu.

Hann er einnig með væga einhverfu, skertra félagsfærni, kvíða og er með mikinn athyglisvanda, því mun iPad koma honum að góðum notum, en sannað er að iPad getur hjálpað með þessi einkenni sem talin voru upp hér að undan. Því teljum við að iPadinn geti haft jákvæð áhrif á hans líf á mjög víðtækan máta.

Þetta er hress og skemmtilegur strákur sem á örugglega eftir að standa sig vel í að notfæra sér möguleika iPadsins.

Við óskum honum til hamingju með snemmbúnu jólagjöfina.


Lítil og glaðlynd 3ja ára stúlka að nafni Razan Selma kom í búðina til okkar og fékk að gjöf iPad og ZooGue tösku frá iBörnum, sem er styrktarsjóður iStore. Hún er fimmtánda barnið sem fær iPad frá okkur. Hún er með CP heilalömun, en það lýsir sér þannig að útlimir hennar eru stífir og þar af leiðandi gengur hún ekki og hefur takmarkaða hreyfifærni í höndum, sérstaklega hægri hönd.

Razan er klár stelpa en vegna takmarkaðrar hreyfifærni hefur hún minni möguleika en önnur börn til að kanna umhverfi sitt og þroskast á eðlilegan hátt. Þess vegna myndi iPad til afnota í leikskólanum og heima örva hana til að nota hendurnar sínar og hún myndi einnig nýta hann til tjáskipta og almennrar þroskaeflingar. Við höfum mikla trú á þessari
glaðlindu stúlku sem bræddi hjörtu allra viðstaddra með einlægu útgeislandi brosi sínu.


Ella Dís kom við í iStore í Kringlunni til að sækja iPad og ZooGue tösku sem hún fékk gefins frá okkur.

Næstum allir kannast við hana Ellu Dís, en hún er loksins á batavegi en er eins og er lömuð að mestu leyti.

Hetjan sýndi okkur þó að það er kraftur í henni því hún hreyfði fæturnar kröftuglega fyrir okkur með stoltu brosi á vör.

iPadinn mun nýtast henni til að tjá sig, þjálfa hreyfingar og hjálpa henni í skólanum.

Við óskum henni góðs gengis.


Bryndís Emma, 18 mánaða, kom til okkar í dag í nýju búðina og fékk iPad að gjöf frá okkur en hún fæddist með afar sjaldgæft 5p- syndrome sem er litningagalli. Hún tjáir sig ekki mikið, notar einstöku tákn svo sem „drekka“, „búið“, „borða“, „nei“, og nokkur fleiri, en hún segir engin orð markvisst.

Hún þarf hjálp með fínhreyfingar, en með réttri þjálfun og örvun mun hún líklega ná nokkuð góðum tökum á þeim með iPadinum.

Við óskum þessari glaðlegu stúlku til hamingju með iPadinn!


Í dag fékk hinn 6 ára Jón Arnar Sigurðsson tólfta iPadinn frá iStore. Hann mun aldrei geta gengið. Hann fæddist með CP fötlun sem og tvíburasystir hans en hún er ekki eins mikið fötluð.

Vegna hreyfihömlunar á hann erfitt með að nota skriffæri og því mun hans skólaganga og lærdómur fara í gegnum tölvur og þar mun iPadinn nýtast honum vel.

Óskum honum til hamingju og góðs gengis í náminu!


Alexander Már fær ellefta iPadinn frá iBörnum, styrktarsjóð iStore. Hann er 18 mánaða gamall. Allt var eðlilegt á meðgöngunni og talið er að hann hafi hlotið heilaskaða rétt fyrir fæðingu sem orsakar það að hann er flogaveikur.
Hann er með CP (hreyfihömlun) í vinstri hendi og fæti og einnig í hægri hendi. Það vantar alveg uppá allar fínhreyfingar í höndunum og mun iPadinn því vera mikilvægur fyrir hann til að þjálfa fínhreyfingarnar og vonandi tjá sig í framtíðinni. Það verður spennandi að fylgjast með honum.

Þess má geta að hann var nýkominn úr sjúkraþjálfun þegar hann tók á móti iPadinum og því dauðþreyttur, eiginlega steinsofandi.


Guðmundur Orri Garðasson er tíunda iBarnið sem fær iPad gefins frá iStore. Hann varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu og hafði aldrei sömu ósjálfráðu viðbrögð og nýfædd heilbrigð börn. Þriggja mánaða fór hann að fá krampa og flogaköst. Var hann 5 mánaða greindur flogaveikur. Hann á erfitt með mál og tjáningu og notar mest tákn með tali til að gera sig skiljanlegan. Hann hefur stórar og grófar handahreyfingar og á erfitt með að stjórna mús eða öðrum stýripinnum, en við erum viss um að iPad mun hjálpa honum við að þjálfa fínhreyfingar og tjáningu. Við höfum mikla trú á þessum duglega og hressa strák. Það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.


Í gær gáfum við Hilmi Bjarka iPad. Hann er næstum tveggja og hálfs árs gamall. Hilmir hefur orðið fyrir umtalsverðum heilaskaða einhverntíma á meðgöngu og um tíma var óttast að hann hefði enga eða mjög takmarkaða sjón. Hreyfihömlun Hilmis Bjarka er mikil og nær til allra útlima auk þess sem hann hefur enn ekki öðlast færni til að sitja sjálfur eða velta sér. Við erum alveg viss um að Hilmir á eftir að geta notað iPadinn til að tjá sig í framtíðinni miðað við fyrstu viðbrögð hans þegar hann prófaði iPadinn.


Á öskudeginum fékk Xavier Tindri Magnússon iPad frá okkur. Hann fæddist heilbrigður en 4 mánaða gamall lést hann vöggudauða. Meira en 20 mínútum síðar var hann lífgaður við en þá hafði hann orðið fyrir heilaskaða vegna súrefnisskorts. Hann á erfitt með að stjórna hreyfingum og getur ekki tjáð sig. Undanfarna 6 mánuði hefur honum farið mikið fram vegna nýs lyfs sem verið er að prófa og bindum við vonir um að iPadinn örvi hreyfigetuna, sjón og heyrn. Það mátti finna fyrir því að hann þráir geta náð stjórn á hreyfingum. Það er viðeigandi að hann var klæddur í Superman búning þegar við hittum hann því hann á eftir að fljúga í gegnum þetta!


3ja ára stúlka að nafni Rakel Sunna fékk iPad jólagjöf frá okkur á Þorláksmessu. Hún er hreyfihömluð, getur ekki gengið og á erfitt með að halda höfði. Hún þrátt fyrir allt glöð og mikil félagsvera. Með iPadinum vonumst við til að iPadinn hjálpi henni með þroska og mögulegum tjáskiptum í framtíðinni.

Uppfært: Okkur hryggir að segja frá því að hetjan hún Rakel Sunna lést í Rjóðrinu 19. ágúst 2013

Blessuð sé minning hennar


Ellefu ára stúlka fékk iPad í jólagjöf frá iBörnum, styrktarsjóði iPhone.is. Hún heitir Beinta María og er með alvarlegan efnaskiptasjúkdóm sem veldur alvarlegri hreyfihömlun. Það eru mjög góðar líkur á að iPadinn geri henni mögulegt að tjá sig í framtíðinni. Einnig mun iPadinn nýtast henni vel í námi og leik. Hún er sjötta barnið sem fær iPad frá okkur á einu ári.


iPhone.is gaf Ásgeiri Lýðssyni iPad. Hann er með brot á litningi sem orsakar flogaveiki, lágavöðvaspennu, blöðrunýru og mikla röskun á miðtaugakerfinu. Hann talar t.d. ekki, vantar samhæfingu í höndunum og hann er lengi að tileinka sér nýja hluti eins og leikföng. Hann er mikil félagsvera og hefur gaman af söng, tónlist, stórum bílum og fótbolta. Við trúum því að iPadinn eigi eftir að nýtast honum vel við tjáskipti, afþreyingu og að þjálfa samhæfðar hreyfingar.


Kolbrún Eik Grétarsdóttir er fjögurra ára gömul. Hún fæddist án þess að hafa myndað heilabrú sem er tengingin á milli heilahvelanna tveggja sem sér um að koma skilaboðum þar á milli.

Ofan á það er hún með ógreindan genagalla. Afleiðingin af því er að hún á erfitt með að læra nýja hluti og þarf oft að endurtaka sama hlutinn í langan tíma áður en hann lærist. Þar kemur iPadinn sterkur inn sem þjálfunartæki.

Hún er mikið eftir á í hreyfi- og greindarþroska og á erfitt með að framkvæma og skilja hluti sem jafnaldrar hennar taka sem sjálfsögðum hlut, eins og það að ganga frá disknum eftir sig, standa upp, klæða sig í eða þvo sér um hendurnar. Það þarf að hjálpa henni við allt sem hún gerir og hún hefur ekki enn byrjað að tala.

iPadinn getur hjálpað henni að tjá sig með snjallforritum sem fást á App Store.

Kolbrún er alltaf til í að fara í iPadinn og er tilbúin til að prufa allt. Hún er alsæl með hann.

Vonin er að iPadinn hjálpi henni í hreyfiþroska sem og andlegum. Við hlökkum mikið til að sjá hvernig henni vegnar í framtíðinni.


iStore og sjóðurinn Blind börn á Íslandi gáfu í dag Helenu Sól Keilen iPad 2 32GB og ZooGue tösku. Helena fæddist með efnaskiptasjúkdóm sem takmarkar meðal annars hreyfigetu og sjón. Hún getur ekki tjáð sig en er glaðlynd og með mikla útgeislun. Hún sýndi strax góð viðbrögð við iPadinum og var hæst ánægð með þessa afmælisgjöf, en hún átti 7 ára afmæli 6. maí síðastliðinn. Við trúum því að gjöfin komi sér vel fyrir Helenu.


Í dag gáfum við öðru barni með Spinal Muscular Atrophy iPad. Barnið er 2ja ára og heitir Keran Stueland Ólason. Eigandi iStore fór og heimsótti hann í dag og átti góðar stundir með honum þar sem hann prófaði iPad í fyrsta skipti og það var yndislegt að sjá viðbrögðin og áhugann sem hann sýndi.

Hann var ekki lengi að átta sig á iPadinum og sýndi góðar og markvissar hreyfingar. Hann lék sér m.a. í grafíkforritum, fletti bók og glamraði á gítar.iPad breytti lífi hennar en hún fór frá því að vera rúmliggjandi yfir í að keyra hjólastólinn sinn sjálf.

Að mati foreldra hennar varð þessi árangur af því að Þórhildur Nótt eignast iPad sem hún fékk að gjöf frá iStore, sem varð til þess að hún að sýndi fram á meiri hreyfigetu en foreldrar hennar og læknar höfðu séð fyrir, en hún var með lömunarsjúkdóminn SMA1.

Hún þjálfaðist með því að nota iPadinn og 6 mánuðum síðar ók hún um í hjólastól sem er eitthvað sem foreldrar hennar höfðu vonað en ekki séð fyrir. Iðjuþjálfarar voru búnir að vera heillengi að þjálfa hana upp markvissar hreyfingar en en án árangurs. Strax þegar hún fékk iPadinn sýndi hún strax meiri hreyfigetu. Hún fór meira að segja að sýna hreyfingar sem foreldrarnir höfðu ekki séð áður. Þórhildur lést í desember 2011. Hún var neistinn sem startaði þessum styrktarsjóð okkar, en við teljum að hún hafi verið meðal fyrstu hreyfihamlaðra barna til að nýta sér iPad til að þjálfa upp hreyfigetu.