Í tilefni af degi sjaldgæfra sjúkdóma buðum við einstakri stúlku, henni Freydísi Borg iPad og ZooGue hulstur að gjöf. Hún er 45. barnið sem fær iPad að gjöf frá iStore Kringlunni. Freydís er 2ja ára og greindist fyrir ári síðan með Williams heilkenni. Heilkennið er sjaldgæft og það eru aðeins 19 einstaklingar á Íslandi með það.

Freydís er með mjög seinkaðan hreyfiþroska og er til dæmis ekki enn farin að ganga. Hún er með laka vöðvaspennu og það flækir aðeins fyrir henni. Einnig notar hún augun sín á mjög sérstakan hátt, hún notar bara annað í einu og er með það sem kallast „rörasýn“.

iPad mun klárlega hjálpa til við að örva hana, að æfa fínhreyfingar, samhæfa augu og auka lífsgæði hennar.

Við höfum mikla trú á þessari einstöku stúlku!


Í dag kom til okkar flottur strákur að nafni Pawel til að fá glaðning frá okkur, en hann er 44. langveika barnið sem fær iPad og ZooGue hulstur að gjöf frá okkur í iStore Kringlunni.

Hann fæddist eftir tæplega 26 vikna meðgöngu og var vart hugað líf við fæðingu. Hann hlaut alvarlegar heilablæðingar og er afleiðing þeirra sú að hann er með hreyfihömlun sem kallast CP heilalömun. Hann er núna 2ja og hálfs árs gamall.

Hreyfihömlunin gerir það að verkum að Pawel notar lítið hægri hönd sína og nær illa að stjórna hreyfingum hennar. Hreyfihömlunin hefur einnig áhrif á fætur en Pawel getur ekki gengið óstuddur. Áfallið sem hann varð fyrir við að komast í þennan heim orsakaði einnig þroskaskerðingu svo Pawel er ekki farinn að tala.

Við erum 100% viss um að iPad á eftir að gagnast þessum flotta strák vel í að þjálfa hreyfigetu og tjáningu og að örva þroska.