Til okkar kom í dag hinn 5 ára Patryk Szarpak og fékk iPad og ZooGue tösku að gjöf frá iStore, en hann er 37. langveika barnið sem fær iPad frá okkur. Patryk er með einhverfugreiningu og talsverða seinkun í þroska og málþroska. Patryk er glaðlyndur og skemmtilegur drengur með mikla útgeislun.

Patryk talar ekkert og notar hann PECS boðskiptakerfi til boðskipta. PECS boðskiptakerfið hjálpar honum að tjá sig um hvað hann vill gera eða fá. Einnig er Patryk með dagskipulag sem sýnir hvenær hann eigi að gera hvað. Sjónrænt dagskipulag veitir honum öryggi því þá veit hann alltaf hvað hann á að gera.

Við höfum mikla trú á því að þessi gjöf muni auka lífsgæði hans til muna, örva þroska hans og gera honum fært að tjá sig með iPad.