Í dag gáfum við nítjánda iPadinn. Yndislegur og glaður drengur, Guðfinnur Ari Bachmann, kíkti við hjá okkur í iStore, til að sækja iPad og ZooGue tösku sem við ákváðum að gefa honum. Hann verður 6 ára í næstu viku og er þetta því kærkomin afmælisgjöf. Hann er með CP fjórlömum sem þýðir að hann er verulega hreyfihamlaður. Hann fer um í hjólastól sem hann getur ýtt að nokkru leyti sjálfur. Hreyfiskerðing í höndum er einnig veruleg og getur hann nýtt þær mjög takmarkað. Hann þarf fulla umönnun. Tjáning Guðfinns er mjög takmörkuð og segir hann einungis örfá orð. Guðfinnur sýnir umhverfi sínu mikinn áhuga og er sérstaklega áhugasamur um tónlist.

Við höfum mikla trú á að Guðfinnur Ari geti nýtt sér iPad vel til að þjálfa fínhreyfingar, tjá sig, hjálpa sér í námi, spila á hljóðfæri og örva þroska.

Við óskum honum og fjölskyldu hans innilega til hamingju með gjöfina, það verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni!